tilkynna-minni

Verndum börn gegn ofbeldi

Ofbeldi brýtur börn niður og rænir þau eðlilegri barnæsku. Fjöldi barna á Íslandi elst upp við líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi, þau eru lögð í einelti eða eru vanrækt.

  • Allir eru skyldugir samkvæmt íslenskum lögum að tilkynna til Neyðarlínu 1-1-2, barnaverndarnefnda eða lögreglu ef grunur er um að barn sé beitt ofbeldi, það verði fyrir áreitni eða búi við óviðunandi uppeldisaðstæður.
  • Sá sem tilkynnir þarf ekki að hafa rökstuddan grun um að brotið sé gegn barni. Leyfum börnum að njóta vafans. Látum fagfólk skoða málið og grípa til aðgerða ef þess reynist þörf.
  • Þeir sem tilkynna geta óskað nafnleyndar gagnvart öllum aðilum málsins nema barnaverndarstarfsmanni. Það er gert til þess að hægt sé að hafa samband aftur og fá nánari upplýsingar ef með þarf.
  • Það er ekkert til sem heitir stéttarskipting á ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnum, slíkt þekkist í öllum stéttum samfélagsins.

Þú getur breytt lífi barns!

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í starfi sínu. Samtökin hafa frá upphafi unnið að réttindum barna og velferð og eitt af megin verkefnum þeirra er að berjast gegn ofbeldi á börnum. Þessi vefsíða hefur að geyma upplýsingar um ofbeldi á börnum, einkenni, afleiðingar og hvert er hægt að leita ef grunur vaknar um ofbeldi á barni. Vefsíðan er ætluð öllum almenningi og ekki síst þeim sem starfa með og að málefnum barna.

Samkvæmt Barnasáttmálanum skulu allir sem taka ákvarðanir fyrir börn taka mið af því sem er börnum fyrir bestu og þeir sem stjórna landinu skulu gera allt sem þeir geta til að réttindi barna séu virt. Íslensk stjórnvöld staðfestu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992. Samkvæmt honum, eiga öll börn rétt á vernd óháð búsetu, útliti, kyni, trú, siðum eða venjum þeirra eða foreldra þeirra. Börn eiga rétt á vernd gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, og þau eiga rétt á hjálp ef þau hafa orðið fyrir slíku.

Ábyrgðin er þín!

REYNSLUSÖGUR:

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, og Gunnar Hansson, leikari, hafa lent í einelti og ofbeldi. Í Blaði Barnaheilla 2013 segja þeir sögu sína.

 

Myndir sem tengjast umfjöllun um ofbeldi á þessari síðu eru sviðsettar.


 Styrktaraðilar verndumborn.is eru:

LB_Merki

 

Bakhjarlar Barnaheilla - 
Save the Children á
Íslandi eru: