Skólinn

Öll börn eiga rétt á því að ganga í skóla og rétt á að líða vel í skólanum. Þar á okkur að líða vel. Í skólanum eyðum við miklum tíma og því skiptir miklu máli að við finnum fyrir öryggi og séum sátt. Stundum er það bara ekki þannig. Stundum líður okkur illa í skólanum. Það getur verið vegna þess að við erum óörugg, eigum í erfiðleikum með heimanám, erum leið eða kvíðum fyrir því að taka próf. Stundum getur það verið vegna feimni, eða að við finnum fyrir einmannaleika, okkur er strítt og eigum ekki vini. Það geta líka verið einhverjar aðstæður heima fyrir sem okkur líður illa yfir. Þá er gott að geta leitað til einhvers sem hægt er að treysta.

Ef þér líður illa í skólanum skaltu leita þér hjálpar. Oft er gott að byrja á því að leita til kennarans og segja honum frá líðan þinni. Hann getur þá vísað þér áfram, til dæmis til námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Það er líka hægt að leita beint til námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Námsráðgjafi í skólanum er þinn trúnaðarmaður. Hann styður þig og reynir að hjálpa þér við að leysa ýmis mál sem upp koma. Námsráðgjafi starfar fyrir nemendur og á að aðstoða þá í málum sem snúa að námi, námstækni og prófkvíða, framhaldsnámi og starfsvali. Námsráðgjafi á líka að aðstoða með persónuleg mál.

Það er líka gott að leita til hjúkrunarfræðings og hann er í raun líka þinn trúnaðarvinur. Hjúkrunarfræðingar starfa í flestum grunnskólum. Þeir eru yfirleitt með fastan viðverutíma í skólanum en oft starfa þeir líka á heilsugæslustöðvum nálægt skólanum. Það er hægt að leita til hjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Skólahjúkrunarfræðingurinn getur til dæmis aðstoðað þig með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynlíf og getnaðarvarnir. Ef þú hefur áhyggjur af líðan þinni er gott að byrja á því að ræða það við hjúkrunarfræðinginn.

Þú getur skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is og við munum svara þér.

Ef þú þarf að fá hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert fyrir þig að hringja í hann.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.

Hér eru tenglar með nánari upplýsingum um hvert er hægt að leita:

Heimili og skóli

Menntamálaráðuneytið

Tótalráðgjöf

Olweus

Ef ég bara hefði vitað

Umboðsmaður barna