ahugaverdir

 

 

verndumborn

Netið

Á undanförum árum hefur netnotkun barna og unglinga aukist gríðarlega, ekki síst með tilkomu snjalltækja, sem þau eiga gjarnan sjálf. Þessi tæki eru til margra hluta nytsamleg við nám og störf og jafnframt til að eiga samskipti við félagana svo sem í gegnum samskiptamiðla. Á sumum samfélagsmiðlum er aldurstakmark. Á facebook er 13 ára aldurstakmark, sem ekki allir foreldrar og börn virða.

Með aukinni netnotkun hefur netið orðið vettvangur ofbeldis og eineltis. Stundum er um að ræða samskipti milli jafnaldra en stundum er um að ræða fullorðinn einstakling sem beitir barn ofbeldi á neti og villir gjarnan á sér heimild.

Kynferðislegt tal við barn, að sýna því kynferðislegt efni, myndataka og myndbirting sem sýnir barn á kynferðislegan hátt er ofbeldi gegn barni.  Skoðun, framleiðsla, varsla og dreifing á efni sem sýnir barn á kynferðislegan hátt er ólöglegt. Mjög erfitt er að uppræta það efni sem einu sinni er komið á netið. Eina örugga leiðin enn sem komið er, er að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér stað.

Það barn sem beitt er ofbeldi ber aldrei ábyrgðina á ofbeldinu, ábyrgðin er alltaf þess sem ofbeldinu beitir. Barn ber ekki ábyrgð á því ef ókunnugur hefur samband við það á netinu, þó svo að barnið hafi verið viljugt til að vera í samskiptum við viðkomandi.

Nettæling

Með Nettælingu er átt við að fullorðinn einstaklingur setji sig í samband við barn á netinu og reyni að byggja upp trúnað, traust og vináttu barnsins, til dæmis með því að hrósa því og sýna umhyggju. Hann reynir enn fremur að skapa vantraust hjá barninu gagnvart fjölskyldu þess. Sá fullorðni segist yfirleitt vera annar en hann er og oft að hann sé sjálfur barn eða unglingur. Hann fer svo að vera með kynferðislega tilburði, kynferðislegt tal og gerir kröfur um kynferðislegar athafnir hjá barninu, til dæmis í gegnum vefmyndavélar eða hann reynir að fá barnið til að hitta sig.

Það er mikilvægt að börn hitti aldrei slíkan netvin, því hann getur verið hver sem er. Enn fremur er mikilvægt að átta sig á því að myndir sem eru teknar í gegnum vefmyndavélar er nánast ókleift að uppræta ef þær komast í dreifingu á netinu eða á samfélagsmiðlum. Mikilvægt er að segja einhverjum sem maður treystir frá því ef maður hefur lent í nettælingu.

Hvert getur sá sem verður fyrir nettælingu snúið sér?

Hægt er að fara til lögreglu og kæra slíkt eða tilkynna um tælinguna í gegnum ábendingahnapp Barnaheilla. Þá þarf að gefa upp hvenær nettælingin hófst, gefa upp netföng, aðgangsorð og fleira. Foreldrar geta kært fyrir hönd barna sinna. Barnið er svo kallað til skýrslutöku í Barnahúsi eða í Héraðsdómi Reykjavíkur ef barnið býr í Reykjavík. Barnavernd í hverju sveitarfélagi sér um að barni sé skipaður réttargæslumaður sem er viðstaddur skýrslutökuna. Barn sem lent hefur í nettælingu þarf ekki að að svara neinum fyrirspurnum um málið, né lýsa málsatvikum á öðrum vettvangi en í skýrslutökunni.

Sexting og hefndarklám

Þegar einstaklingar taka af sér nektarmyndir eða skrifa kynferðisleg smáskilaboð og senda öðrum er talað um sexting, sem er samsett af orðunum sexual og texting. Oft gerist slíkt í kjölfar nettælingar. Stundum er þó um að ræða jafnaldra sem eru félagar eða eiga í ástarsambandi, sem taka myndir hvert af öðru eða af sjálfu sér og senda sín á milli. Myndirnar eru svo jafnvel settar á netið þegar sambandinu lýkur sem eins konar hefnd. Þá er um að ræða hefndarklám.

Mikilvægt er að foreldrar fylgist með netnotkun barna sinna, setji reglur og ræði við börnin um hvað beri að varast á netinu.

Hér eru nokkur heilræði:

 • Talaðu opinskátt við barnið um hættur á netinu, s.s. að í sumum tilfellum eru ókunnugir á netinu ekki þeir sem þeir segjast vera og sumir hafa í hyggju að beita börn kynferðisofbeldi.
 • Kenndu barninu að setja sér mörk og að verjast þrýstingi frá öðrum.
 • Kenndu barninu að vera ábyrgt á netinu
 • Brýndu fyrir barninu mikilvægi þess að koma fram við aðra af virðingu og kurteisi í öllum netsamskiptum sem og öðrum samskiptum.
 • Ræddu við barnið um hvernig það notar samfélagsmiðla, við hverja það á mest samskipti  og fáðu að skoða vinalista þess. 
 • Ræddu við barnið þitt um aðra netnotkun þess og hvaða vefsíður það helst notar.
 • Segðu barninu að það er mikilvægt að hitta ekki þá sem það hefur kynnst á netinu nema vera í fylgd með foreldri/forráðamanni.
 • Leggðu áherslu á við barnið þitt, að það sem er sett á netið eða sent öðrum er ógjörningur að uppræta eða eyða af netinu.
 • Hafðu netvara á heimilisnetinu svo barnið þitt komist ekki á óæskilegar vefsíður s.s klámefni.
 • Þú getur sett tímastillingu á heimilisnetið, þannig að barnið geti ekki verið á netinu í snjalltækinu seint um kvöld.
 • Brýndu fyrir barninu að gefa aldrei upp persónuupplýsingar á netinu eins og nafn, heimilisfang, símanúmer, nafn á skólanum, greiðslukortanúmer og aðgangsorð eða leyninúmer.
 • Brýndu fyrir barninu að dreifa ekki efni á netinu sem varðar aðra persónulega og viðkomandi hefur hugsanlega ekki vitund um og hefur ekki samþykkt.
 • Tilkynntu/kærðu til lögreglu ef barn (eða einhver annar á heimilinu) hefur verið beitt ofbeldi, verið tælt eða fengið sent klámfengið efni í gegnum netið
 • Segðu barninu þínu að þú viljir fylgjast með netnotkun þess vegna þess að þér þyki vænt um það og vilji vernda það.
 • Eigðu gott samtal og samstarf við skólann og aðra foreldra um netnotkun barnanna og þær hættur sem eru á netinu.

Hugsanlegar vísbendingar um að barn sé beitt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi gegnum Netið

 • Barnið þitt eyðir miklum tíma á vefnum, sérstaklega á næturnar
 • Þú finnur klámefni í heimilistölvu/síma/tölvu barnsins
 • Barnið þitt fær símtöl frá fólki sem þú þekkir ekki, eða barnið hringir sjálft í ókunnugan. Stundum eru það símtöl til útlanda og í númer sem þú kannast ekki við
 • Barnið þitt fær tölvupóst, gjafir og/eða pakka frá einhverjum sem þú þekkir ekki
 • Barnið þitt slekkur strax á tölvunni eða skiptir um viðfangsefni á skjánum ef þú kemur að því í tölvunni
 • Barnið þitt er að nota vefaðgang annarra
 • Barnið fer að fjarlægjast fjölskylduna

 

Hvernig á foreldri að fylgjast með vefnotkun barns og hvernig á að bregðast við

 • Tala opinskátt við barnið um grun þinn. Segja frá hættunni sem getur fylgt því að tala við ókunnugt fólk á vefnum.
 • Skoða hvað er á tölvu barnsins og/eða hvað barnið er að gera á vefnum. Ef þú telur þig ekki vera með næga kunnáttu til þess, spurðu einhvern með tölvuþekkingu um ráð. Klámfengið efni á tölvu eða önnur kynferðisleg samskipti á vefnum geta verið hættumerki.
 • Fylgjast með öllum forritum í tölvunni og á vefnum sem barnið getur notað til að vera í samskiptum við aðra eins og samfélagsmiðlum, tölvupóstum og spjallrásum.
 • Vera með númerabirti á símtækjum heimilisins þannig að þú getir séð hvaða númer er hringt í.
 • Tilkynna/kæra skal til lögreglu ef barn (eða einhver annar á heimilinu) hefur verið beitt ofbeldi, verið tælt eða fengið sent klámfengið efni í gegnum netið

 

Hvernig er hægt að minnka hættuna á að barn verði fyrir tælingu og kynferðislegu ofbeldi á netinu

 • Vera í tengslum við barnið og tala við það um hættuna á kynferðisglæpamönnum á netinu
 • Eyða tíma með barninu á netinu og láta það sýna þér uppáhalds síður þess og afþreyingu á netinu
 • Hafa heimilistölvuna í opnu rými og fylgjast með notkun barnsins á netinu í fartölvum og/eða snjallsímum. Það er mun erfiðara fyrir kynferðisglæpamenn á netinu að vera í sambandi við barn þar sem foreldrar eða aðrir sjá á tölvuskjáinn meðan barn er í tölvunni
 • Nota þær síur/takmarkanir sem hægt er að setja upp í tölvum þannig að börn komist ekki inn á hvað sem er. Þó skal ávallt hafa varann á, því þó ákveðnar síur/takmarkanir séu settar upp getur hættan samt sem áður verið til staðar
 • Hafa ávallt aðgang að því sem barnið er að gera á netinu og skoða reglulega tölvupóst barnsins og hvaða vefsíður það hefur verið að skoða
 • Vera ávallt opin við barnið og ræða við það um að þú viljir, og sért að fylgjast með því sem það gerir á netinu til að vernda það
 • Skoða ferilskrána í tölvunni reglulega til að sjá hvar barnið hefur verið að vafra
 • Kenna barninu að vera ábyrgt á netinu
 • Kynna sér og þekkja hvaða ráðstafanir eru gerðar í skólum til að koma í veg fyrir að börnin geti orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á netinu. Einnig er gott að kynna sér hvernig þessum málum er háttað heima hjá vinum barnsins þíns
 • Það er mjög nauðsynlegt að skilja að barn ber ekki ábyrgð á því ef ókunnugur hefur samband við það, þó svo að barnið hafi verið viljugt til að vera í samskiptum við viðkomandi

 

Áríðandi að brýna fyrir barni að:       

 • Aldrei hitta þann sem það hefur kynnst á netinu nema vera í fylgd með foreldri/forráðamanni
 • Aldrei setja myndir af sjálfu sér á netið eða senda þeim sem maður hefur kynnst á netinu
 • Aldrei gefa upp persónuupplýsingar á netinu eins og nafn, heimilisfang, símanúmer, nafn á skólanum, greiðslukortanúmer og aðgangsorð eða leyninúmer
 • Aldrei hlaða niður efni eins og myndum og slíku frá einhverjum/einhverju ókunnugu
 • Aldrei svara póstum, „pop-up” síðum eða öðru slíku sem er tvírætt, klámfengið, dónalegt eða því um líkt
 • Aldrei taka öllu trúanlegu sem sagt eða gert er á netinu