Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum er eitt alvarlegasta ofbeldi sem til er. Gerendur í þessum brotum brjóta oftast gegn þeim börnum/unglingum sem eru tengd þeim á einhvern hátt í skyldleika eða eru í nánasta umhverfi þess. Vegna þess eru börn oft að verða fyrir broti af hálfu einhvers sem þau eiga og hafa geta treyst. Gerendur í kynferðisbrotamálum bera alltaf alla ábyrgð á brotinu

Kynferðislegt ofbeldi getur verið allt frá orðum, myndbirtingum, snertingum og til nauðgunar. Þó allt kynferðislegt ofbeldi sé alvarlegt er alvarleiki þeirra oft metinn mismikill eftir tegund brots, tengsl geranda við þolanda og fjölda brota.

Andleg áhrif kynferðislegs ofbeldis á börn. Nokkur atriði sem geta gefið vísbendingar um að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi

 • Árásargjörn hegðun/ á erfitt með að hemja skap sitt
 • Dregur sig í hlé frá vinum og fjölskyldu
 • Svefnvandamál og martraðir
 • Aukinn orðaforði um kynfæri.
 • Kvartar yfir sársauka, pirring og/eða sýkingar á eða við kynfæri
 • Áverkar eru sýnilegir á kynfærum
 • Barnið vill ekki vera skilið eitt eftir með ákveðnum einstaklingum
 • Barnið sýnir kynferðisleg hegðun gagnvart leikföngum, öðrum börnum eða í teikningum
 • Barnið er farið að gera aftur hluti sem það er vaxið upp úr eins og að pissa á sig, gráta, eða vera mjög háð þeim sem þau treysta.

ATH: Ekki þarf endilega að vera um kynferðislegt ofbeldi að ræða ef barn sýnir eitthvað af þessari hegðun. Enn fremur getur verið að barn sem orðið hefur fyrir kynferðislegu ofbeldi sýni ekki breytta hegðun.

Hegðunarörðugleikar sem geta komið fram hjá unglingum sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi

 • Erfiðleikar í skóla og vinnu
 • Ótímabærar þunganir
 • Afbrot og ófélagsleg hegðun
 • Áfengis og vímuefnanotkun
 • Eiga erfitt með persónulegar skuldbindingar eins og ástarsambönd
 • Sjálfsvígshugsanir
 • Ofbeldi gegn ástvini

Hvernig á að bregðast við gagnvart barni ef það gefur eitthvað í skyn sem gæti tengst kynferðislegu ofbeldi

 • Hlustaðu, ekki yfirheyra barnið
 • Sýndu stillingu og yfirvegun
 • Sýndu að þú skiljir hvað barnið er að meina og taktu það alvarlega sem það segir. Þetta skiptir miklu máli fyrir möguleika barnsins að vinna úr áfallinu sem hlaust af ofbeldinu.
 • Fullvissaðu barnið um að það hafi verið rétt hjá því að segja frá vegna þess að barn sem er beitt kynferðislegu ofbeldi af einhverjum nátengdum gæti fundið fyrir sektarkennd af því að hafa uppljóstrað leyndarmálinu. Barnið gæti verið hrætt við þann sem braut gegn því vegna þess að barninu eða einhverjum nákomnum því hafði verið hótað illu ef það segði frá.
 • Segðu barninu að þetta sé ekki því að kenna að það hafi verið misnotað. Þetta skiptir máli þar sem mörg börn hafa fengið þau skilaboð frá brotamanni að það eigið þetta skilið vegna einhvers sem það gerði.
 • Segðu barninu að þú munir vernda það og reyna að hindra að áframhaldandi ofbeldi geti átt sér stað.
 • Leyfðu barninu að tala um þetta hvenær sem það vill, það hjálpar því.

Viðurkenndu það sem barnið segir

 • Ekki grípa fram í fyrir barninu og spyrja leiðandi spurninga.
 • Ekki ýta á barnið að halda áfram að segja frá eða reyna að fá fram nákvæmari upplýsingar ef barnið er ekki viljugt til að segja frá því.
 • Ekki nota orð sem eru vanalega ekki í orðaforða barns þegar þú ræðir við það um upplifun þess.
 • Ekki „leiðrétta” eða bregðast við með setningum eins og „af hverju sagðir þú mér þetta ekki fyrr” eða „af hverju leyfðir þú viðkomandi að gera þetta við þig”.
 • Ekki gagnrýna frásögn barnsins eða draga hana í efa þó hún hljómi fjarstæðukennd eða þú takir eftir augljósum staðreyndarvillum í frásögn.
 • Reyndu að koma því til skila til barnsins að því sé óhætt að ræða þessa hluti. Ef barnið nefnir þetta ekki oftar er þér óhætt að ítreka það við barnið að því sé óhætt að tala um það ef þú telur það þurfa þess.

Af hverju á að tilkynna til barnaverndar, 112- Neyðarlínu eða lögreglu?

 • Börn eru hrædd um að þeim verði ekki trúað ef þau taka af skarið og segja frá.
 • Börn eru hrædd um að verða tekin af heimilum sínum ef þau segja frá.
 • Þegar börn eru misnotuð eru þau oftast of hrædd til að segja einhverjum frá. Þau geta sjaldnast leitað hjálpar sjálf og oft er ofbeldismaðurinn einhver nákominn barninu, einhver sem barnið ætti að geta treyst.
 • Mikilvægt er að tilkynna allar grunsemdir um kynferðislegt ofbeldi. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að líklegt er að ofbeldið haldi áfram þangað til gripið er inn í. Einnig þar sem nánustu aðstandendur barnsins eru oft á tíðum í skömm yfir málinu eða of stressaðir til að tilkynna og leita hjálpar.
 • Spurðu sjálfan þig að því hvort þú haldir að barninu sé óhætt miða við það sem þú veist. Ef svarið er nei skaltu tilkynna það án tafar. Ef svarið er já en þú heldur samt áfram að hafa áhyggju þá skaltu tilkynna það án tafar. Ef þú ert í vafa og veist ekki hvað skal gera hafðu þá samband við barnavernd og fáðu ráðleggingar.

Nokkur ráð sem má reyna að nota til að sporna við því að barn verði beitt kynferðislegu ofbeldi

 • Kenndu barninu þínu réttu nöfnin á kynfærum sínum.
 • Forðastu að einblína bara á hættuna af ókunnugum vegna þess að oftast eru börn misnotuð af einhverjum sem þau þekkja og treysta.
 • Kenndu barninu hvað er heilbrigt og öruggt varðandi líkamann, og byrjaðu eins snemma og mögulegt er eða alveg niður í leikskólaaldur.
 • Komdu því vel til skila hjá barninu að það hafi ákvörðunarrétti um hvað gert er við líkama þeirra.
 • Kenndu barninu að segja nei þegar það vill ekki vera snert hvort sem um er að ræða kynfæri eða aðra hluta líkamans.
 • Segðu barninu að það hafi rétt á að neita að snerta annað fólk ef það vill það ekki.
 • Kenndu barninu þínu muninn á góðum leyndarmálum eins og óvæntum afmælum og þess háttar og vondum leyndarmálum eins og þegar barnið á að geyma leyndarmál fyrir fullt og allt.
 • Kenndu barninu þínu að fara aldrei neitt með ókunnugum til dæmis ekki í bíl eða inn í hús.
 • Treystu innsæi þínu, ef þú hefur vonda eða skrítna tilfinningu fyrir því að skilja barnið þitt eftir hjá einhverjum, þá skaltu sleppa því.
 • Vertu vakandi fyrir því ef barninu er sýndur óvenjulega mikill áhugi af einhverjum.
 • Foreldrar/forráðamenn eiga að vita hvar barnið er á öllum tímum sólarhringsins.
 • Nauðsynlegt er fyrir foreldrar að þekkja vini barna sinna og þær aðstæður sem þau búa við.

 

Myndbönd

Leiðin áfram

Á síðunni leidinafram.is er að finna myndbönd sem veita börnum, unglingum, foreldrum og forráðamönnum innsýn og upplýsingar um ferli kynferðisbrotamála í réttarvörslukerfinu. Myndböndin geta auðveldað þau skref sem þarf að taka verði barn eða unglingur fyrir kynferðislegu ofbeldi.

 

Fáðu já!

Á síðunni faduja.is er 20 mínútna stuttmynd sem ætlað er að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Þar er einnig sjálfspróf og ýmis konar fróðleikur um kynlíf og kynheilbrigði.