Ofbeldi á heimili

Áhrif og afleiðingar þess á börn að alast upp við kynbundið ofbeldi


Ein með hugsanir sínar
Heimilisofbeldi er alla jafna vel falið fjölskylduleyndarmál. Börn fá sjaldnast tækifæri til þess að tala opinskátt um líðan sína og ástandið á heimilinu. Þau eru því ein með hugsanir sínar og reyna sjálf að finna skýringar á því sem þau hafa séð og heyrt á heimilinu. Börnin þora ekki að spyrja foreldra sína að því sem brennur á þeim eða vilja ekki íþyngja þeim með spurningum sínum.

Kvíði og ótti
Oft og tíðum hafa börn ekki þroska til að skilja það sem á gengur.  Andrúmsloftið á heimilinu er þrúgandi og ógnar öryggi þeirra. Þetta hefur slæm áhrif á börnin sem standa ráðalaus gagnvart aðstæðunum. Þetta gerir það að verkum að börnin fyllast kvíða og ótta. Þessi lífsreynsla fylgir þeim ævina á enda. Hætt er við að án utanaðkomandi hjálpar valdi hún langvinnum erfiðleikum.

„Þetta var mér að kenna“
Börn sem búa við heimilisofbeldi þróa gjarnan með sér samviskubit og finnst eins og þau beri einhvern veginn ábyrgð á ofbeldinu. Þegar spennan á heimilinu magnast, hafa þau hægt um sig og eru hrædd um að stuðla að frekari árásum á móður sína. Þá finnst börnum gjarnan að þau hafi brugðist móður sinni með því að hafa ekki komið í veg fyrir ofbeldið.  Nauðsynlegt er að koma börnum í skilning um að ofbeldið er aldrei þeim að kenna og að tilfinningar og hugsanir þeirra hafi verið eða séu eðlileg viðbrögð við erfiðum aðstæðum.

Óraunhæfar kröfur
Börn sem búa við heimilisofbeldi komast snemma í kynni við erfiðar staðreyndir lífsins, staðreyndir sem þau hafa ekki enn þroska til að skilja. Þau verða „fullorðin“ of fljótt á vissum sviðum og fá ekki tækifæri til að þroskast á eðlilegan máta eins og önnur börn. Börnin fara gjarnan að gera óraunhæfar kröfur til sín. Þau taka á sig óásættanleg hlutverk á heimilinu til þess að koma niðurbrotnum foreldrum til hjálpar. Þá er vel þekkt að börn taki að sér foreldrahlutverk og annist yngri systkini á erfiðum tímum á heimilinu. Sum þeirra leggja mikið á sig til að vernda systkini sín þegar allt fer í bál og brand á heimilinu, t.d. með því að skipuleggja fyrirfram hvernig þau ætla að koma þeim í skjól.

Vanrækt börn
Þegar grunnþörfum barna er ekki sinnt, eins og t.d. þörfinni fyrir öryggi, jákvæðan aga og stöðugleika, er um að ræða vanrækslu gagnvart þeim. Börnin eru að þroskast og eru á viðkvæmu mótunarstigi en foreldrar vanrækja skyldur sínar gagnvart þeim; ofbeldismaðurinn með hegðun sinni og móðirin vegna þess að hún á nóg með eigin vandamál. Börnin skortir sárlega eðlileg viðmið og festu í daglegt líf og oft átta þau sig ekki á því hversu óeðlilegar heimilisaðstæður þeirra eru fyrr en þau eru orðin eldri.

Fórnarlömb ofbeldis
Erlendar rannsóknir gefa til kynna að börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi á sér stað milli foreldra verði sum hver fyrir líkamlegu eða annars konar ofbeldi sjálf, og að þau séu í aukinni hættu gagnvart því. Börn sem búa við heimilisofbeldi læra einnig snemma að hægt er að nota ofbeldi til þess að stjórna öðrum. Í sumum tilfellum eru þau beinlínis hvött til þess. Ofbeldis- eða vandræðahegðun barna getur verið þeirra leið til að takast á við og endurspegla ástandið heima fyrir. Það er engu að síður mikilvægt að halda því til haga að fráleitt öll börn sem búa við ofbeldi á heimili verða ofbeldismenn eða fórnarlömb ofbeldis á fullorðinsárum.

Hvers þarfnast börn sem búa við kynbundið ofbeldi á heimili?

1. Að ofbeldið hætti.

2. Að finna til öryggis í kjölfar þess að ofbeldið hættir og fullvissu um að það muni ekki hefjast á ný.

3. Að fá viðurkenningu frá öðrum um að þær hugsanir sem bærast með þeim og tilfinningarnar sem þau finna fyrir séu skiljanlegar og eðlilegar í ljósi þeirra aðstæðna sem þau hafa búið við.

4. Að vera fullvissuð um að það sem gerðist á heimilinu var ekki þeim að kenna.

5. Að fá tækifæri til þess að ræða um erfið atvik á heimilinu á þeirra eigin forsendum og á eigin hraða.

6. Að læra nýjar aðferðir til þess að takast á við afleiðingar ofbeldisins.

7. Að læra að það er alltaf óásættanlegt að beita ofbeldi.

8. Að læra að það eru aðrar leiðir til þess að leysa ágreining en að beita ofbeldi.

9. Að læra um jafnrétti kynjanna.

Hvað get ég gert?
Samkvæmt íslenskum lögum eru allir skyldugir til að tilkynna til Neyðarlínu 1-1-2, barnaverndarnefnda eða lögreglu ef grunur er um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða það sé beitt ofbeldi. Heimilisofbeldi flokkast án nokkurs efa undir óviðunandi uppeldisaðstæður. Við berum því öll ábyrgð á því að börn búi ekki við slíkar aðstæður. Rétt er að árétta að börn ættu alltaf að njóta vafans og að börn sem búa við heimilisofbeldi eru alltaf fórnarlömb. Sá sem tilkynnir þarf ekki að hafa rökstuddan grun um að brotið sé gegn barni. Treystum fagfólki til að skoða málið og grípa til aðgerða ef með þarf.
Hvert get ég leitað?

Eins og áður var nefnt, má tilkynna grun um að barn búi við heimilisofbeldi til Neyðarlínu 1-1-2, til starfsmanna barnaverndanefnda sem eru í starfræktar í hverju sveitarfélagi eða til lögreglu. En það er einnig hægt að ræða við fleiri aðila, svo sem starfsfólk félagsþjónustu, heilsugæslu og Kvennaathvarfs. Fjölskyldur geta leitað aðstoðar hjá Fjölskyldumiðstöðinni eða hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Börnum er sérstaklega bent á að ræða við kennara sína, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa auk þess sem þau geta hringt í Neyðarlínu 1-1-2, hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða leitað aðstoðar á hjálparlínu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi - heyrumst.is.


Hlutverk Umboðsmanns barna er m.a. að gæta þess að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmaður og starfsfólk hans leiðbeinir börnum og fullorðnum um það hvert beri að leita til að fá lausn sinna mála. Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children á Íslandi taka einnig við ábendingum um öll málefni er varða réttindi barna og veita ráðgjöf og leiðbeiningar.

Körlum sem beita ofbeldi er bent á vefinn Karlar til ábyrgðar þar sem þeim sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar býðst aðstoð - Karlar til ábyrgðar.

Ef barnið er tengt þér skaltu ekki hika við að setjast niður og ræða við það og veita því stuðning og vinna að því að fjölskylda og vinir blandi sér í málið til að binda enda á ofbeldið og vinna að því að börnin og þeirra nánustu fái nauðsynlegan stuðning.


Barn þarfnast fyrst og fremst að:

• ofbeldið hætti

• að finna til öryggis og að ofbeldi muni ekki eiga sér stað aftur á heimilinu 

• að fá útskýringar á því sem hefur verið að gerast á heimilinu (ofbeldi, átök, deilur o.s.frv.) sem taka mið af þroska þess

• að heyra að ofbeldið á heimilinu hafi ekki verið því að kenna

• að fá viðurkenningu á því að þær hugsanir og tilfinningar sem bærast innra með barninu séu skiljanlegar og eðlilegar í ljósi þeirra aðstæðna sem það hefur búið við

• að heyra að ofbeldið eigi ekki að vera leyndarmál og að barnið þurfi ekki að skammast sín

• að fá tækifæri til þess að ræða um erfið atvik á heimilinu, þegar barninu hentar og á þess eigin hraða

• að læra nýjar aðferðir til þess að takast á við tilfinningalegar afleiðingar ofbeldisins

• að læra að það sé óásættanlegt að beita ofbeldi og að það séu aðrar leiðir til þess að leysa ágreining

Hvað get ég gert meira?
Þú getur lagt þitt af mörkum með því að vera vakandi fyrir umhverfi þínu og um leið ábyrgur þátttakandi í samfélaginu. Börn eru gullmolar, fjársjóður hverrar þjóðar. Það er hlutverk hinna fullorðnu að gæta þess að hvert barn fá tækifæri til að njóta sín. Því miður er það staðreynd að ofbeldi gegn börnum viðgengst á Íslandi og tekur á sig margvíslegar myndir. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var fullgiltur á Íslandi árið 1992. Eitt af grundvallargildum Barnasáttmálans er vernd barna og réttur þeirra til lífs. Mikilvægur hluti í starfi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er verndun barna gegn ofbeldi. Þú getur gerst heillavinur barna og þannig tekið virkan þátt í baráttunni fyrir mannréttindum barna.

Tillögur Barnaheilla – Save the Children á Íslandi að leiðum til úrbóta
Barnaheill – Save the Children á Ísland hvetja hlutaðeigandi yfirvöld til að taka til gagngerrar endurskoðunar málefni barna sem eru vitni að heimilisofbeldi. Efla þarf vitund og fræðslu meðal fagfólks um að börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi á sér stað gagnvart móður, eða milli foreldra, eru einnig fórnarlömb. Finna þarf börnin, hlusta þarf á þau og veita þeim öryggi, vernd og stuðning. Til að svo geti orðið verður að vera til heildstæð stefna, með viðeigandi skimun, úrræðum, formlegu samstarfi og samhæfingu á milli stofnana, þ.á.m. lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, skólakerfis, dómskerfis og heilbrigðisþjónustu.

1.Löggjöf.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi benda á að í fyrrnefndri þingsályktunartillögu Evrópuráðsins er lagt til að aðildarríkin undirbúi vinnu Evrópuráðssamnings um vernd kvenna og barna gegn ofbeldi. Þar verður m.a. lögð áhersla á að hagsmunir barna, sem eru vitni að heimilisofbeldi, séu ekki vanræktir og tryggt að þau fái alla nauðsynlega þjónustu og stuðning. Samtökin telja nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hugi að heildstæðri löggjöf hér á landi. Einnig er afar mikilvægt að öll málsmeðferð fyrir dómi taki mið af hagsmunum, öryggi og vernd barnanna, ekki síst í umgengnis- og forræðismálum þar sem börn hafa búið við kynbundið ofbeldi.

2. Börn sem fórnarlömb.
Að mati Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er brýn þörf á að auka vitund fagfólks um aðstæður barnanna, bæði þeirra sem starfa með konum sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis sem og þeirra sem starfa með börnum. Sérstaklega þarf að skoða málin frá sjónarhorni barnanna. Núverandi nálgun, sem m.a. kemur fram í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn ofbeldi á heimilum og miðar að því að kenna fagfólki að bera kennsl á einkenni barna sem búa við ofbeldi, er ekki líkleg til árangurs að mati samtakanna. Ekki er hægt að greina sérstaklega börn, sem búa við heimilisofbeldi, frá börnum sem búa ekki við slíkar aðstæður út frá einkennum af þessum toga. Einkenni sem gjarnan eru gefin upp, eru almenn einkenni sem gefa til kynna vanlíðan barna og spanna breitt svið. Ástæður fyrir þeim einkennum hjá börnum geta verið margvíslegar og þurfa ekki að tengjast heimilisofbeldi á nokkurn hátt. Nýjar leiðir þarf því að fara í fræðslu til fagfólks svo það geti náð til barna sem búa við heimilisofbeldi og veitt þeim viðeigandi stuðning.

3. Stuðningur við börn.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi telja líklegar skýringar þess, hve fáir viðmælendur þekkja beint til aðstæðna barna sem eru vitni að heimilisofbeldi, vera þær að á stofnunum þeirra eru konur og börn sjaldnast spurð að því hvort kynbundið ofbeldi viðgangist á heimilinu. Samtökin telja afar mikilvægt, til að hægt sé að finna börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi er gegn móður eða milli foreldra og veita þeim öryggi og nauðsynlegan stuðning, að hlutaðeigandi stofnanir hefji skimun þar sem kannað er á markvissan hátt hvort börn búi við og verði vitni að ofbeldi á heimilum sínum.

4. Að hlusta á börnin.
Að mati Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er afar mikilvægt að rætt sé við börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi á sér stað, hlustað sé á þau og markvisst mat fari fram á líðan þeirra svo hægt sé að veita þeim viðeigandi aðstoð. Efla þarf til muna þekkingu þeirra aðila, sem eru í beinum tengslum við börnin, á því hvernig best sé að ræða við og styðja börnin. Einnig þarf að sjá til þess að börnin eigi greiðan aðgang að fagfólki sem er sérmenntað í vinnu með börnum og hefur góðan skilning á þörfum þeirra.

5. Verklagsreglur.
Að mati Barnaheilla – Save the Children á Íslandi þarf að tryggja að verklagsreglur séu til staðar og í notkun hjá viðkomandi stofnunum. Þær feli í sér greinagóðar upplýsingar um hvernig starfsmenn skuli bregðast við aðstæðum barna, sem búa á heimilum þar sem ofbeldi gegn móður eða milli foreldra á sér stað. M. a. verður að tryggja að rætt sé við börnin og gert mat á líðan þeirra og þörf þeirra á stuðningi eða meðferð.

6. Tilkynningar til barnaverndar.
Að mati Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er gap á milli væntinga viðmælenda til barnaverndar og þess hvernig barnavernd tekur á málunum. Þannig telja viðmælendur að ef málum er vísað til barnaverndar tryggi það að börnin fái þann stuðning og það öryggi sem þau þurfa. Í reynd fylgir Barnavernd Reykjavíkur aðeins eftir þeim málum sem skilgreind eru sem alvarlegustu málin. Svo virðist sem mörg mál af þessu tagi falli milli stafs og hurðar og í reynd séu fáir aðilar að gefa gaum að aðstæðum barna sem eru vitni að ofbeldi á heimilum sínum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi telja afar mikilvægt að komið verði á formlegu samstarfi milli félagsþjónustu, barnaverndar, lögreglu, Kvennathvarfs, heilbrigðisstofnana og dómskerfis um málefni barna sem eru fórnarlömb ofbeldis á heimilum sínum og úrræði þeim til handa. Þannig væri hægt að tryggja að börn sem búa við heimilisofbeldi fái nauðsynlegan stuðning og aðstoð og málum þeirra sé fylgt eftir. Barnaheilla –Save the Children á Íslandi telja brýna þörf á að fjalla nánar um þessi mál hér á landi og efna til umræðu um hvernig hægt sé að stuðla að auknu samstarfi milli þeirra sem vinna með börnum og þeirra sem styðja við mæður sem hafa orðið fyrir ofbeldi af höndum maka. Sömuleiðis er þörf á því að skýra nánar hvenær þörf er á eftirfylgd með máli barns, á vegum félagsþjónustu og/eða barnaverndar, til að tryggja að ekki sé brotð á réttindum barna sem þarfnast stuðnings eða meðferðar.

7. Úrræði. 
Barnaheill –Save the Children á Íslandi fagna vinnu Barnaverndarstofu en telja mikla þörf á að sem fyrst verði komið á úrræðum til að tryggja öryggi barna sem búa við ofbeldi á heimilum sínum og aðstoð við fjölskyldur þeirra. Að mati samtakanna er mikil vöntun á almennum úrræðum og þjónustu fyrir börn og fjölskyldur sem þurfa á stuðningi og aðstoð að halda vegna erfiðleika í fjölskyldum.

Mikilvægt er:

• Að ofbeldið hætti.

• Að börnin finni til öryggis og að þau viti að ofbeldi muni ekki eiga sér stað á heimilinu á ný.

• Að börnin fái útskýringar á því sem hefur átt sér stað á heimilinu *

• Að börnin viti að ofbeldið á heimilinu var ekki þeim að kenna.

• Að börnin fái viðurkennningu á því að þær hugsanir sem bærast með þeim og tilfinningarnar sem þau finna fyrir séu skiljanlegar og eðlilegar í ljósi þeirra aðstæðna sem þau hafa búið við.

• Að börnin viti að þau þurfi ekki að skammast sín og að ofbeldið eigi ekki að vera leyndarmál.

• Að börnin fái tækifæri til að ræða um erfið atvik á heimilinu, þegar þau eru tilbúin til þess.

• Að börnin læri nýjar aðferðir til þess að takast á við afleiðingar ofbeldisins.

• Að börnin fái að vita hver næstu skref fjölskyldunnar eru, t.d. hvort þau muni flytja í nýtt húsnæði og hvenær þau fái að hitta föður sinn næst.

• Að börnin læri að það er óásættanlegt að beita ofbeldi og að það eru aðrar leiðir til þess að leysa ágreining.

• Að börnin læri um jafnrétti kynjanna

* Fyrstu skrefin eru að foreldrar láti börnin vita að þau geti rætt opinskátt um ofbeldið sem átti sér stað á heimilinu og að það sé ekki lengur leyndarmál. Margir foreldrar virðast eiga erfitt með að útskýra fyrir börnum sínum hvað gerðist og því getur verið þörf á að leiðbeina þeim um það hvernig best er að ræða þessi mál.

Rannsókn Barnaheilla - Save the Children á félagslegum stuðningi og úrræðum fyrir börn sem eru vitni að heimilisofbeldi frá árinu 2011.

Efni um heimilisofbeldi
www.barn.is
www.bvs.is
www.kvennaathvarf.is


Mál og menning í samstarfi við Barnaverndarstofu: Illi kall.

Bókinni er ætlað að opna umræðu um áhrif heimilisofbeldis á börn og að hjálpa fullorðnum í nærumhverfi barna til að ræða um þetta viðkvæma málefni við börn. ILLI KALL er íslensk útgáfa norsku verðlaunabókarinnar SINNA MANN eftir Gro Dahle og Svein Nyhus, í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur. Bókin á erindi við alla, fullorðna, unglinga og börn sem komin eru með þroska til að meðtaka viðfangsefni hennar. Boðskapur sögunnar er tvíþættur: Það er hægt að leysa jafnvel illviðráðanlegustu vandamál og lykillinn að lausn slíkra vandamála er ævinlega að segja frá. Fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi getur þessi vitneskja skipt sköpum. Gerð hefur verið mynd eftir bókinni sem hægt er að fá upplýsingar um á http://www.trollfilm.no/.