ahugaverdir

 

 

verndumborn

Tenglar

Barnaheill - Save the Children á Íslandi 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti alþjóðlegrar hreyfingar, Save the Children International, og vinna að réttindum og velferð barna á Íslandi og erlendis. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er leiðarljós samtakanna í öllu þeirra starfi. Samtökin vinna að breytingum á högum barna í gegnum talsmannahlutverk, fræðslustarf og grasrótarverkefni. Helstu áherslur hérlendis eru á barnavernd, baráttu gegn ofbeldi á börnum, þátttöku barna og á málefni barna innflytjenda. Helstu áherslur Barnaheilla - Save the Children á Íslandi erlendis eru á menntun barna og neyðaraðstoð.

Barnahús

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss. Börn og forráðamenn þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Sæti mál lögreglurannsókn fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara en barnaverndarnefndir geta óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnahúss vegna gruns um annars konar ofbeldi gegn börnum. www.bvs.is

Blátt áfram

Blátt áfram eru frjáls félagasamtök og tilgangur samtakanna er að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Blátt áfram vinnur að eflingu forvarna með því að setja ábyrgðina í hendur fullorðinna á því að vernda börn gegn kynferðislegu ofbeldi. Blátt áfram bjóða upp á bæði fræðslu fyrir almenning, og eins þá sem vinna með börnum. Einnig býður Blátt áfram upp á fræðslu fyrir unglinga í formi lífsleiknifræðslu og brúðuleikhús fyrir ynstu börnin. http://www.blattafram.is/

 

Hjálparsíminn 1717

Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn. Hann ætlaður þeim sem þurfa aðstoð vegna kvíða, depurðar, þunglyndis, sjálfsvígshugsana eða annað slíkt. Sjálfboðaliðar sem hafa fengið þjálfun símsvörun slíkra símtala sem sjá um að svara og er fyllsta trúnaðar gætt milli þeirra sem hringja og sjálfboðaliða.

Netsvar og Saft 

Netsvar er vefur sem gefur almenningi kost á að senda fyrirspurnir og nálgast upplýsingar um hvaða eina sem tengist öruggri netnotkun og fá svör frá sérfræðingum. Netsvar er samvinnuverkefni Heimilis og skóla, Póst- og fjarskiptastofnunar og Barnaheilla. www.netsvar.is         

 

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi á vegum Heimilis og skóla. Þessu vakningarátaki er ætlað að efla vitund um örugga og ábyrga notkun á Netinu og tengdum miðlum og hvernig hægt er að njóta þess á jákvæðan, skemmtilegan, fræðandi og öruggan hátt. Upplýsingar um þetta er hægt að finna á heimasíðu SAFT. www.saft.is 

Olweusarverkefnið gegn einelti

http://olweus.is/

Regnbogabörn

Regnbogabörn eru fjöldasamtök áhugafólks um eineltismál. Markmið samtakanna er meðal annars að gera börnum kleift að lifa án félagslegs áreitis og ofbeldis frá jafningjum sínum. www.regnbogaborn.is

Ríkissaksóknari

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hann er skipaður af ráðherra ótímabundið og skal fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Ríkissaksóknara til aðstoðar eru vararíkissaksóknari og saksóknarar. Skrifstofa ríkissaksóknara er til húsa að Hverfisgötu 6 í Reykjavík. http://www.rikissaksoknari.is/

Stígamót

Stígamót eru samtök þar sem fólk, sem orðið hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi,  getur leitað til eða ef það þekkir einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða ef það vantar upplýsingar eða ráðgjöf um kynferðislegt ofbeldi. Fólk getur fengið einstaklingsviðtöl og einnig tekið þátt í sjálfshjálparhóp í framhaldi af því. Stígamót taka á móti báðum kynjum allstaðar af landinu og geta veitt símaráðgjöf fyrir þá sem ekki eiga kost á því að koma á staðinn. Tekið skal fram að ekki er tekið á móti fólki undir 18 ára.www.stigamot.is

Systursamtök Stígamóta á Akureyri - www.aflid.muna.is

Systursamtök Stígamóta á Ísafirði - www.solstafir.is

Tótalráðgjöf

Tótalráðgjöfin er á vegum Hins Hússins fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem glímir við ýmsan vanda eða áföll á uppvaxtarárum sínum. Þetta á við um áföll í skóla eða einkalífi, kynferðisbrotum, ofbeldi, vímuefnamisnotkun, þunglyndi og ástvinamissi. Einnig er hægt að fá námsráðgjöf, ráð varðandi ástarmál og kynlíf. www.totalradgjof.is

Barnaverndanefndir og félagsþjónusta

Barnaverndarnefndir hafa sérhæft starfsfólk á sínum vegum sem sinna barnaverndarmálum. Hlutverk barnaverndarnefnda er samkvæmt barnaverndarlögum eftirlit, úrræði og önnur verkefni er snúa að börnum. Varðandi eftirlit þá eiga barnaverndarnefndir að kanna aðbúnað, uppeldisskilyrði og hátterni barna og meta þarfir sem allra fyrst sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Barnaverndarnefndir skulu beita úrræðum samkvæmt barnaverndarlögum til verndar börnum sem best á við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni þeirra og velferð. Önnur verkefni barnaverndarnefnda er að sinna þeim verkefnum sem falin eru í barnaverndarlögum og þeim er skylt að aðstoða foreldra við að sinna forsjáskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða.Barnaverndarnefndir heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga. Hægt er að koma tilkynningum um barnaverndarmál beint til starsfmanna barnaverndarnefnda og einnig í gegnum Neyðarlínuna 112.  

Heilsugæslan

Á heilsugæslustöðvum er hægt að leita eftir aðstoð og stuðningi er varða persónuleg mál eins og heilsu og líðan ásamt almennri læknisþjónustu. Ef barn ber áverka eftir ofbeldi eða kynferðislegt ofbeldi, er mikilvægt að fara á næstu heilsugæslustöð og láta starfsfólk þar líta á barnið. Tryggja skal að áverkar séu skráðir. Einnig er hægt að ræða við lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum um persónuleg mál eins og heilsu og líðan.

112

Neyðarlínan sér um að taka við öllum símtölum frá almenningi sem eru vegna neyðartilvika og aðstoðarbeiðna. Þeir sem svara símtölum sem berast neyðarlínu sjá um að meta erindin og forgangsraða eftir ákveðnum verkferlum. Erindin eru margvísleg til dæmis vegna slysa, dauðsfalla, barnaverndarmála, bruna, árása, náttúruhamfara, sjóslysa og margt fleira. S. 112

Lögreglan

Ef einstaklingur telur að brotið hafi verið á sér eða öðrum er afar mikilvægt að viðkomandi kæri málið til lögreglu eða tilkynni það. Hægt er að tilkynna brotið í síma en jafnan óskar lögreglan eftir því að viðkomandi komi á þá lögreglustöð sem er næst þeim stað þar sem brotið var framið og leggi fram formlega kæru. Því fyrr sem brot er kært því meira má reikna með að hægt sé að rannsaka það. Hægt er að sjá allar upplýsingar um lögreglustöðvar á landinu á vefslóðinni www.logreglan.is

Hér er hægt að skoða upplýsingabækling fyrir þolendur afbrota.

Starfsfólk skóla

Allir nemar í grunnskólum og framhaldsskólum eiga að hafa kost á því að geta rætt við námsráðgjafa, umsjónarkennara eða skólahjúkrunarfræðing um sín mál. Þessir aðilar geta þá gefið góð ráð og einnig komið tilkynningum til barnaverndarnefnda ef þess er þörf.

Umboðsmaður barna

Hlutverk umboðsmanns barna er að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra. Umboðsmaður á að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum. Hann á jafnframt að vinna að því að tillit sé tekið til hagsmuna barna þegar um er að ræða lagasetningar, skipulagningu og ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. Öllum er leyfilegt að leita til umboðsmanns barna og er hans hlutverk að leiðbeina um þær leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Umboðsmanni barna er þó ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining til dæmis varðandi forsjá eða deildur milli foreldra og barna. www.barn.is

 

Minn líkami, mín sál