Vanræksla eða Ofbeldi

ATH: HVERT MÁL ER EINSTAKT - ÞVÍ GETUR FERILL MÁLA VERIРMISJAFN 

1. Skref

Hvert og hvernig skal tilkynna


Ef þú ert almennur borgari eru tveir valkostir:

a) 1-1-2. Tekur niður upplýsingar og kemur til barnaverndarnefndar í upphafi hvers dags nema um sé að ræða mál sem krefst viðbragða án tafar, þá er haft samband strax. 

b) Barnaverndarnefnd. Tilkynnt er til starfsmanns barnaverndanefnda í viðkomandi sveitarfélagi. Tilkynnandi þarf alltaf að gefa upp nafn en hægt er að óska nafnleyndar að öðru leyti. Þetta er gert til að barnaverndarstarfsmaður geti haft samband við tilkynnanda aftur ef leita þarf frekari upplýsinga. Barnavernd tekur ákvörðun innan 7 daga hvort fara eigi í könnun máls. Ef hugsanlegt er að um alvarlegt mál sé að ræða er gripið til ráðstafana strax.

 

Ef þú vinnur með börnum. Oftast er því þannig háttað að starfsmaður lætur skólastjóra/skólahjúkrunarfræðing eða einhvern annan vita og sá sér um að tilkynna til barnaverndar. Starfsmaður getur þó alltaf tilkynnt sjálfur beint til barnaverndar eða með því að hafa hringja í 1-1-2 Neyðarlínuna. Barnavernd í viðkomandi sveitarfélagi fær tilkynningu í nafni skólans/stofnunarinnar og á ábyrgð þess en ekki einstaka starfsmanns.

ATH: Skólinn/stofnunin nýtur ekki nafnleyndar gagnvart foreldrum barnsins. Starfsmenn skóla fá ekki neinar upplýsingar um stöðu mála nema þegar barn fær breytta forráðamenn tímabundið eða varanlega.


2. Skref

Annað hvort er farið í könnun máls eða ekki:

a) Nei: Ekki farið í könnun máls. Bréf sent til foreldra um að tilkynning hafi borist en að ekkert verði aðhafst. Ekki er hægt að kæra þessa ákvörðun.

b) Já: Farið í könnun máls. Þá er málið orðið að barnaverndarmáli, foreldrum sent bréf um málið nema það rekist á við hagsmuni barnsins. Strax ákveðið hvort skipa þurfi barninu talsmann. Í könnun máls er aflað allra helstu upplýsinga. Þegar mál hefur verið kannað, er gerð greinargerð sem fjallar um hvað skuli gera í framhaldinu, það er að segja áætlun um úrræði, senda málið til lögreglu eða loka því. Greinagerðin verður að liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákveðið er að fara í könnun máls. Ekki er hægt að kæra þessa ákvörðun.

 

3. Skref

Eitt af eftirtöldu þrennu gerist ef farið er í könnun máls:

a) Málinu lokað. Ekki gerð nein áætlun. Málinu telst lokið. Könnun máls leiðir í ljós að ekki er þörf á að grípa til úræða.

b) Máli vísað til lögreglu til rannsóknar.

(Sjá ferli hjá lögreglu í „tilkynning til lögreglu")

c) Áætlun um hvað skuli gera, s.s. hvaða úrræði verði nýtt.

 

4. Skref

Ef áætlun er gerð:

Úrræði. Stuðningur eða ráðgjöf inn á heimili eða utan þess, dvöl barns á vistheimili (með eða án foreldris), einkaheimili eða fósturheimili.

Kærunefnd barnaverndarmála

Þolendur og forráðamenn í barnaverndarmálum geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð nefndarinnar. Nefndin skal taka kæruna til meðferðar innan tveggja vikna og kveða upp úrskurð innan þriggja mánaða. Nefndin heyrir undir félags- og tryggingarmálaráðuneytið.

 

ATH: Tilkynnandi á ekki rétt á upplýsingum um gang málsins eða ákvarðanir barnaverndarnefndar nema tilkynnandinn sé foreldri/forráðamaður barnsins.